Heimarafstöð – sjálfbær orkubúskapur

stifla2_webRafmagnsframleiðsla í eigin vatnsaflsvirkjun, heitt vatn úr eigin borholu, drykkjarvatn úr eigin borholu.

Sjálfbær orkubúskapur Hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingarfjöllum á sér vart hliðstæðu.Allt heitt vatn til rekstursins er úr holu sem boruð var 1986 um 600 metra frá Hálendismiðstöðinni.

Í um 500 metra fjarlægð frá Hálendismiðstöðinni er virkjun sem tekin var í gagnið 1971 til að sjá þáverandi skíðaskóla í Kerlingarfjöllum fyrir rafmagni. Skólinn var eingöngu starfræktur á sumrin og virkjunin sömuleiðis.

Vatnið í Ásgarðsá er drifkraftur virkjunarinnar og þar með raforkuframleiðslunnar.

Á árunum 2009 til 2013 var unnið að umfangsmiklu viðhaldi og endurbótum á tækja og tólum Sælufossvirkjunar. Má segja að hún hafi gengið linnulaust frá því vorið 2013. Með því að nýta saman heita vatnið og rafmagnið næst að hita öll hús á svæðinu árið um kring og þessi orka dugar jafnvel að óbreyttu til upphitunar nýja móttöku- og gistihússins þegar framkvæmdum við það lýkur.

Vatnsaflsvirkjun sér líka nálægum sendi í farsímakerfi landsins fyrir raforku. Fyrir fáeinum árum rufu skellir dísilrafstöðvar oft kyrrðina í Kerlingarfjöllum en það gerist ekki lengur. Sjálfbær, græn íslensk orka náttúrunnar hefur leyst af hólmi innflutta jarðolíu sem eldsneytisgjafa til upphitunar og annarrar starfsemi ferðaþjónustunnar.

Eiður Jónsson í Ártúni sinnir viðhaldi í Sælufossvirkjun í júlí 2016.

stifla1_web